Ýmislegt stöff frá mér.

þriðjudagur, 5. október 2010

Á sjó/ Breki

Já ég kíkti á RIFF um helgina og sá mynd sem ég hef ætlað að sjá lengi. Myndina Breki eftir Harald Ara Karlsson sem ég held að sé lokaverkefni hans úr Kvikmyndaskóla Íslands. Haraldur Ari frumsýndi myndina í bæjarbíóinu í Eyjum í sumar en ég fór ekki á hana sökum... höhömm... þynnku en nú notaði ég tækifærið því hún var sýnd á RIFF og þess vegna alveg einstakt tækifæri sem ég vildi alls ekki missa af aftur.

Myndin Á sjó eftir Sigurð Sverri Pálsson var sýnd á undan og fannst mér það alveg frábær upplifun líka. Myndin er tekin 1991 og fjallar um leikara, Valdimar Örn Flygenring sem ræður sig á sjó í 10 daga til að æfa sig fyrir kvikmynd sem hann er að fara að leika í og á að gerast um borð í togara. Myndin er svona blanda af leik og bara daglegu lífi um borð og eru allir "leikararnir" í alvöru áhöfnin á Breka VE. Á sjó gerist um borð í Breka og er pabbi Haralds Ara mikið í mynd í henni. Einu og hálfu ári eftir að tökum á myndinni lauk þá ferst pabbi Haralds Ara þegar hann fellur útbyrðis og myndin var aldrei almennilega kláruð fyrr en einhverjum árum seinna.
Eins og ég sagði áðan þá er Breki lokaverk Haralds Ara úr Kvikmyndaskóla Íslands og þar gerir hann upp fráfall pabba síns. Hilmar Oddsson leikstýrir þessari stuttmynd og Valdimar Örn Flygenring leikur síðan sálfræðing Haralds Ara í myndinni. Kvikmyndatakan er mjög sérstök í myndinni og er svona frekar óræð eins og um minningu sé að ræða og nálgunin er einlæg og barnsleg en Haraldur Ari var einmitt 5 ára þegar pabbi hans féll útbyrðis. Myndin er mjög áhrifamikil og hefur líka Á sjó mikið um að segja þar. Það var mikið af Vestmannaeyingum í bíósalnum og andrúmsloftið var hálfrafmagnað og ekki ólíklegt að myndirnar báðar hafi snert viðkvæma strengi hjá mörgum sem þar voru.


Þetta var frábær upplifun í alla staði. Fyrri myndin er góð heimild um sjómannslífið sem er að vissu leyti orðið hálf ósýnilegt hér á landi og þá sérstaklega í höfuðborginni þar sem sjómenn eru fáheyrðir. Ég hlakka líka til að sjá hvað Haraldur Ari ætlar að gera í framtíðinni. Hann er nú mikið að vinna í Leikfélagi Vestmannaeyja bæði við leik og leikstjórn en ég bíð spennt eftir því að sjá fleiri myndir frá honum. Hæfileikapiltur á ferðinni hér.


Engin ummæli: